Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra auglýsti eftir umsóknum og tilnefningum í níu manna nefnd Alþingis sem endurskoða á stjórnarskrá landsins. Stjórnarskrármálið var eitt af mestu hitamálunum á Alþingi í vor en þar sökuðu þáverandi stjórnarliðar stjórnarandstæðinga um að tefja málið með ýmsum hætti, s.s. með málþófi.

M.a. lýsti Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, vantrausti á ríkisstjórnina vegna málsins en hann sagði ríkisstjórnina ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Þá lagði hann til að fram að kjördegi sæti starfsstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sæti sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því væru meiri líkur á að sátt myndi nást um mál sem varðaði hagsmuni þjóðarinnar.

Sigmundur sagði í munnlegri skýrslu sinni um störf ríkisstjórnarinnar á Alþingi sem hófst í dag að nýja nefndin eigi að byggja á þeirri vinnu sem fram fór í vor. Vinna nýrrar nefndar á að hefjast sem fyrst, að hans sögn.