Ólga og vonbrigði ríkir meðal sauðfjárbænda í kjölfar ákvörðunar slátursleyfishafa um að lækka afurðaverð að meðaltali um 9,8% fyrir lömb og 33,7 % fyrir annað sauðfé. Áður en niðurstaðan lá fyrir höfðu Landssamtök sauðfjárbænda gefið út sitt viðmiðunarverð sem hljóðaði upp á 12,5% hækkun frá verðinu árið á undan. Lækkunin er reiðarslag fyrirsauðfjárbændur sem hafa löngum haldið því fram að erfitt sé að lifa á því afurðaverði sem þeim hefur staðið til boða í gegnum tíðina og nú virðast þeir enn sjá fram á erfiðari tíma. Landssamtök sauðfjárbænda hafa tekið saman að tekjutap stéttarinnar í kjölfar lækkunarinnar sé tæplega 600 milljónir króna ef miðað sé við að framleiðsla verði sú sama og í fyrra.

Kemur illa við bændur

Þóra Sif Kópsdóttir, sauðfjárbóndi og formaður Félags sauðfjárbænda á Snæfellsnesi, segir undangengna lækkun afurðaverðs koma mjög illa við bændur. „Við erum búin að leggja út fyrir öllum kostnaðinum fyrir næsta ár þannig að þetta er bara hrein og klár tekjulækkun sem mun síðan koma til með að bitna á rekstrinum fyrir næsta ár. Þetta er mjög slæmt. Sauðfjárbændur eru með mismunandi mikinn ríkisstuðning og þetta er að öllum líkindum stærri skellur fyrir þá sem eru með minni ríkisstuðning. Slík bú hafa nú þegar af litlu að taka og hafa hagrætt í botn til að geta lifað yfirhöfuð. Þetta þýðir þannig bara meiri aukavinnu utan bús.“

Þóra Sif segir það heyra til undantekninga ef sauðfjárbóndi er ekki með aukavinnu samhliða búrekstri. „Við þurfum öll að vinna samhliða búrekstrinum því jafnvel þó að búið standi undir sér þá þurfum við pening fyrir heimilið og til að veita börnunum okkar og fjölskyldu það sem þarf. Við erum sjálf með 1.000 kindur í vetrarfóðrun þannig að við teljumst sem stórt bú en við erum þrátt fyrir það með tiltölulega lítinn ríkisstuðning miðað við stærð. Maðurinn minn vinnur verktakavinnu við að rúlla hey og ég er með heimakynningar og annað smávægilegt. Það er allt gert til að ná í peninga hingað og þangað,“ segir Þóra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.