Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur efnt til sérstaks samráðs við atvinnulífið með það að markmiði að fara markvisst yfir gerðir Evrópusambandsins sem taldar eru falla undir gildissvið EES-samningsins og greina hvaða áhrif innleiðing þeirra hafi á íslenskt atvinnulíf. Í amráðshópnum sitja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Félags íslenskra
stórkaupmanna og utanríkisráðuneytisins.

Stofnun samráðshópsins er liður í auknu samráði utanríkisráðuneytisins við hagsmunaaðila í tengslum við upptöku gerða í EES-samninginn. ,,Við höfum reynt að efla hagsmunagæsluna á ýmsum sviðum, m.a. með stofnun samráðsnefndar sveitarfélaganna um EES-mál. En það hefur skort á aðkomu atvinnulífsins við undirbúning upptöku gerða í EES-samninginn. Með stofnun samráðshóps með fulltrúum SA og FÍS erum við að bæta úr því,? segir Grétar Már Sigurðsson, skrifstofustjóri á viðskiptaskrifstofu
utanríkisráðuneytisins í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins. "Það er afar mikilvægt að fylgst sé vel með þeim gerðum sem samþykktar eru í Evrópusambandinu allt frá fyrstu stigum. Við höfum möguleika á að fá
viðurkennda aðlögun eða undanþágur samfara upptöku gerða í EES-samninginn þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi hér á landi og við höfum sérgreinda hagsmuni að verja. En það er mikilvægt að við komum okkar sjónarmiðum á framfæri nægilega snemma í ferlinu og áður en gerðirnar eru komnar inn í EES-samninginn. Það getur verið erfitt fyrir ráðuneytin að meta hvaða hagsmunir eru í húfi fyrir atvinnulífið og því er
nauðsynlegt að þessir aðilar komi að málunum með okkur þannig að við getum áttað okkur á því strax í upphafi hvort aðstæður hér á landi kalli á sérstaka aðlögun eða undanþágur fyrir Ísland. Þannig geta sparast umtalsverðir fjármunir.?

Sem dæmi um sérstakar undanþágur, sem Ísland hefur fengið frá gerðum Evrópusambandsins, má nefna að í apríl í fyrra samþykkti Evrópusambandið að undanþiggja innanlandsflug á Íslandi frá ákvæðum reglugerðar um flugvernd vegna sérstakra landfræðilegra aðstæðna hér á landi.

Samkvæmt reglugerðinni eru settar strangar öryggiskröfur á öllum flugvöllum innan ESB en reglugerðin hefur einungis verið innleidd hér á landi að því er varðar Keflavíkurflugvöll. Áætlað var að innleiðing reglugerðarinnar hefði að óbreyttu þýtt um 800 milljóna króna útgjöld fyrir íslensk flugmálayfirvöld. Þá má einnig nefna tilskipun um orkunýtni bygginga en ESB samþykkti að Ísland yrði alfarið undanþegið ákvæðum
tilskipunarinnar. Markmið tilskipunarinnar er að bæta orkunýtni bygginga þar sem flestir orkugjafar, sem notaðir eru í ESB-ríkjunum, valda gróðurhúsaáhrifum. Íslensk stjórnvöld bentu á að ákvæði tilskipunarinnar ættu ekki við hér á landi þar sem nánast öll orkunotkun í íslenskum byggingum tengist endurnýtanlegum orkugjöfum.