77,4% aðspurðra telja Fasteignamat ríkisins mjög eða frekar trausta á móti 72% í fyrra. Þeim fækkar einnig um nær helming sem telja stofnunina ótrausta eða úr 12% í 6%. 59% aðspurðra telja sig geta selt eignir sínar á hærra verði en fasteignamat þeirra er og er það hækkun úr 53% í fyrra.

Þetta kemur fram í könnun sem Gallup hefur gert um viðhorf almennings til Fasteignamats ríkisins og er þetta í fimmta sinn sem Gallup gerir slíka könnun. Spurt frá 21. júlí til 4. ágúst og úrtakið var 1350 manns. Sömu lykilspurninga er spurt ár eftir ár til að fá samanburð. Helsta niðurstaðan nú er að traust á stofnuninni hefur aldrei verið meira.

Sömu niðurstöður eru nú og í fyrra um hversu vel eða illa menn telja sig þekkja til stofnunarinnar en 23% telja sig þekkja hana vel en 60% illa.

Sáralítil breyting er á því á milli ára hvort menn telja sig jákvæðan eða neikvæðan gagnvart stofnuninni. Rúm 40% eru jákvæð og rúm 10% neikvæð. Nánast engin breyting er milli ára um hvort menn telja stofnunina íhaldssama, 76% eða framsækna, 11%.