Undanfarið hefur verið aukin ásókn í iðnaðarlóðir í Þorlákshöfn en að sögn bæjarstjórans, Ólafs Áka Ragnarssonar, er sveitafélagið vel sett þegar kemur að iðnaðarlóðum og taldi hann að fá sveitafélög hefðu upp á jafn mikið að bjóða á þeim vettvangi.

"Við sjáum að það er farið að þrengja að á höfuðborgarsvæðinu og þegar menn sjá að það er ekki svo langt hingað þá sjá menn tækifærið í staðsetningunni. Við erum með eitt landmesta sveitafélag landsins og við erum með skipulagðar lóðir fyrir iðnaðarhúsnæði upp á 150.000 fermetra," sagði Ólafur Áki. Hann benti á að landið í Þorlákshöfn hentaði mjög vel undir iðnað, þar væri ódýrt að gera grunna og það væri ódýrt í vinnslu. "Þetta ætti því að henta mörgum fyrirtækjum mjög vel. Menn eru um það bil 20 mínútur niður í Árbæ héðan þannig að vegalengdin ætti ekki að standa í þeim."