Tekjur sveitarfélaga af fasteignasköttum hækka um 2,3 milljarða króna milli áranna 2015 og 2016. Þar af hækka tekjur af atvinnuhúsnæði um 1,8 milljarða eða um 10% á milli ára.

Á sama tíma hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis einungis um ríflega 2%. Ástæða hækkunarinnar er breytt aðferðafræði Þjóðskrár Íslands. Lögmaður SA segir að búið sé að hækka skattbyrði atvinnulífsins um milljarða króna án lagasetningar.

Sveitarfélögin fá samanlagt 35,4 milljarða króna vegna fasteignaskatta á þessu ári. Tekjur sveitarfélaganna vegna þessa námu 33,1 milljarði í fyrra og hækka því um 2,3 milljarða króna á milli ára eða um 7%.

Að stærstum hluta má rekja tekjuaukninguna til breytinga á fasteignamati á landinu öllu. Að meðaltali hækkaði fasteignamat um 5,8% milli áranna 2015 og 2016. Þessu til viðbótar hækkuðu sum sveitarfélög álagningarprósentuna milli ára.

Fasteignaskattar eru næststærsti tekjustofn sveitarfélaganna á eftir útsvarinu. Af 35,4 milljarða króna tekjum af fasteignaskatti eru 18,9 milljarðar vegna atvinnuhúsnæðis (Cflokkur), 12,2 vegna íbúðarhúsnæðis (A-flokkur) og 4,3 vegna skatts sem greiddur er vegna sjúkrastofnana, skóla og íþróttahúsa (B-flokkur).

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .