Smásöluverslun jókst um 1,4% í Bretlandi í febrúar en það er töluvert hærra en greiningaraðilar höfðu reiknað með. Mest er aukningin í sölu á skóm, fatnaði og vefnaðarvöru um 4,7% en það er mesta hækkun í fjögur ár, segir greiningardeild Landsbankans.

"Þetta eru góðar fréttir fyrir smásöluverslanir í Bretlandi en Mosaic, sem skráð er í íslensku Kauphöllina, er þar á meðal," segir greiningardeildin sem bendir á að Mosaic Fashions hafi gefið út jákvæða afkomuviðvörun 26. febrúar.  Greiningardeildin gaf út nýja afkomuspá fyrir Mosaic í síðustu viku og mælir með kaupum og yfirvogun.

"Aftur á móti er hægt að leiða líkur að því að aukning smásöluverslunar komi til með að þrýsta á Englandsbanka um að hækka stýrivexti. Stýrivextir í Englandi voru síðast hækkaðir í janúar og eru þeir nú 5,25%. Spár bankans gera ráð fyrir að þörf kunni að vera á einni vaxtahækkun í viðbót til að ná verðbólgu niður fyrir 2%. Rökin fyrir frekari hækkunum á Englandi eru að einkaneysla hefur verið mikil, laun hafa hækkað og ekki hefur enn tekist að kæla fasteignamarkaðinn þar í landi," segir greiningardeildin.