„Við sjáum áframhaldandi aukningu í þátttöku almennings eftir því sem hlutafélögunum fjölgar hjá okkur. Einnig breytist þetta eftir því sem traust á markaðinum eykst og ráðrúm heimilanna og fjármál þeirra komast í eðlilegra horf eftir hrun,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar, í samtali við DV .

Heimilin áttu rúma 25 milljarða í hlutabréfasjóðum í árslok 2014 samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands, og jókst hún um rúma fimm milljarða á síðasta ári. Þessar tölur endurspegla hins vegar aðeins eign heimila í hlutabréfasjóðum, en ekki beint eignarhald heimila og einstaklinga í skráðum hlutabréfum.

Magnús segir hlutfallið sé ennþá nokkuð frá því sem þekktist á árunum fyrir hrun en það sé kannski eðlilegt. „Nýskráningarnar í fyrra voru ekki jafnmargar og menn höfðu áður gert ráð fyrir og ég held að það sé alveg ljóst að fjöldi þeirra hefur töluverð áhrif því þær stækka mengið og getu heimilanna til að ná ásættanlegri áhættudreifingu. Það hjálpar að hafa fleiri valkosti.“