Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má helst rekja hækkanir dagsins til óvæntra talna sem birtar voru í dag og gefa til kynna að aukningu í nýbyggingum vestanhafs.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 4,1%, Dow Jones um 2,5% og S&P 500 um 3,2%.

Fjöldi nýbygginga jókst verulega milli mánaða í febrúar þegar um 583 þúsund nýjar íbúðir komu á markað en í janúar voru 477 þúsund nýjar íbúðir byggðar, sem var það lægsta í tæp 50 ár að sögn Bloomberg.

Byggingavörukeðjur á borð við Home Depot, Lowe‘s og KB Home hækkuðu um 6,7% til 9,3% en talið er að tekjur þeirra aukist nú þegar nýbyggingum fjölgar, umfram það sem venjulega gerist á sumrin en upp úr miðjum apríl aukast tekjur þessara félaga iðulega þegar fólk fer að dytta að húsum sínum.

Þá héldu bankar og fjármálafyrirtæki áfram að hækka en að sögn Bloomberg telja fjárfestar að rekstur þeirra fari batnandi og búast megi við því að hagnaður þeirra fari vaxandi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eftir mikinn samdrátt síðustu 5-6 ársfjórðunga.

Þannig hækkuðu Citigroup, JP Morgan, Bank of America og Wells Fargo á bilinu 6,1% til 8,4%.

Hráolíuverð hækkaði í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 48,75 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 3% frá opnun markaða.