*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 17. júní 2021 17:11

Aukinn hagnaður Tandurs í faraldrinum

Hreinlætisvörusalan hagnaðist um 214 milljónir króna á síðasta ári. Stóraukin sala á vörum tengdum persónulegum sóttvörnum.

Ritstjórn
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International, er meirihlutaeigandi Tandurs í gegnum fjárfestingafélagið Sjávarsýn.
Eyþór Árnason

Hreinlætisvörusalan Tandur hagnaðist um 214 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 46 milljónir frá fyrra ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Tekjur félagsins námu 1,8 milljörðum króna og jukust um 200 milljónir króna. Að sama skapi fóru rekstrargjöld hækkandi og námu 1,5 milljörðum króna, samanborið við 1,4 milljarða árið áður. 

Eignir félagsins námu 707 milljónum króna í árslok 2020 og eigið fé 397 milljónum.

Tandur er að fullu í eigu Sjávargrundar ehf. Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, forstjóra Iceland Seafood International, á 90% hlut í Sjávargrund. Eftirstandandi 10% eru svo í eigu Svangrundar ehf., en umrætt félag er í jafnri eigu Guðmundar Gylfa Guðmundssonar og Birgis Arnar Guðmundssonar. 

Í skýrslu stjórnar kemur fram að starfsemi félagsins hafi gengið mjög vel í fyrra, þrátt fyrir mikla óvissu á nokkrum af stærstu mörkuðum félagsins. Mjög hafi dregið úr sölu á mörkuðum tengdum ferðaþjónustu í kjölfar takmarkanna vegna COVID-19. Aftur á móti hafi sala aukist mjög á vörum tengdum persónulegum sóttvörnum, þrátt fyrir erfitt aðgengi að hrávöru á heimsvísu.