Gert er ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu muni aukast um 4,3% á þessu ári í stað 2,9% í síðustu spá Seðlabankans, að því er fram kemur í nýrri útgáfu Peningamála.

Mestu muni um aukinn útflutning þjónustu, þar sem bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung bendi til 17% vaxtar auk þess sem talning Ferðamálastofu sýni að erlendum ferðamönnum fjölgaði um rúman fjórðung á fyrstu sjö mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra.

Þá er gert ráð fyrir að verð á helstu útflutningsafurðum Íslendinga verði heldur hærri á spátímanum en búist var við í maíspá Peningamála, aðallega vegna þess að verðlag sjávarafurða og áls hefur hækkað nokkuð á síðustu mánuðum.

Spáð er 8% hækkun verðs á helstu útflutningsafurðum á spátímanum, sem er 6 prósentustiga meiri hækkun en búist var við í maí.

Í Peningamálum segir þó að óvissa ríki um horfurnar vegna mögulegra áhrifa viðskiptabanns Rússlands á mörg Evrópuríki.