Hver ertu?

Gísli Galdur Þorgeirsson, 24 ára, tónlistarmaður og plötusnúður.

Hvað ertu með mikla peninga í veskinu?

21 krónu.

Ertu með mörg kreditkort?

Ég er yfirleitt með eitt í gangi, nema kannski þegar maður er á viðskiptaferðalögunum. Þá er ég yfirleitt með 4-6 kreditkort.

Viðskiptabankinn þinn?

Glitnir og Arab Bank í Sviss eru þeir sem ég hef verið í mestu sambandi við. Ég er samt að fara að hætta hjá þeim.

Ertu eyðslukló?

Stundum.

Leggurðu fyrir?

Já, ég á digra sjóði í erlendum bönkum og síðan safna ég líka gullpeningum eins og Jóakim aðalönd.

Hefurðu átt í fjárhagslegum erfiðleikum?

No comment.

Áttu þitt eigið húsnæði?

Já.

Áttu sumarbústað?

Já, nokkra.

Fjárfestirðu í hvoru tveggja hlutabréfum og skuldabréfum eða öðru hvoru?

Já já já... síðan eru hlut-skuldabréfin líka að koma ansi sterk inn.

Hver er versta fjárfestingin þín?

Allar þær ömurlegu plötur sem maður hélt að væru frábærar og hefur sankað að sér í gegnum tíðina.

Hver er besta fjárfestingin þín?

Fyrsti SL-1200 Technics plötuspilarinn minn.

Sérðu um fjármálin sjálfur eða gerir það einhver fyrir þig?

Ég treysti aðstoðarmanni mínum; Eyvind Gunfred-Manfredson, fyrir öllum mínum málum.

Sérðu sjálfur um skattframtalið?

Já, því að það er það eina sem að Eyvind getur ekki gert.

Í hvað eyðirðu of miklu?

Skó, snekkjur, kampavín og hljóðgervla.

Hver er mesti munaðurinn sem að þú hefur leyft þér?

Við strákarnir í Motion Boys leigðum einu sinni þrjár hæðir á hóteli í Texas að mig minnir. Efsta hæðin var jafnframt toppurinn á húsinu þar sem við lágum síðan í heitum potti, dreyptum á dýru kampavíni og borðuðum jarðarber eftir vel lukkaða tónleika.

Í hvað ætlarðu að eyða næst?

Var að spá í að redda mér svona c.a 230 krónum og fá mér kaffi.

Finnur þú fyrir lækkun virðisaukaskatts á matvælum?

Nei, þetta er kjaftæði. Mér finnst eins og allstaðar séu hlutirnir bara að hækka ef eitthvað er. Það þarf að fara að gera eitthvað í þessu verðlagi hérna!