1. Hver ertu?

Ég heiti Pétur Thor Gunnarsson, 29 ára útivinnandi eiginmaður og faðir. Ég á magnaða einginkonu, eina frábæra dóttur og önnur er á leiðinni. Sölustjóri hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. þar sem ég hef unnið í 11 ár með og í gegnum skóla og það er æðislegt að hafa gaman af vinnunni sinni og ekki síst að vinna með jafn góðu fólki og ég vinn með.

2. Hvað ertu með mikla peninga í veskinu?

Er með 3.500 kr. í veskinu mínu, ótrúlegt en satt. Svo er ég með akkúrat 200 kr. í klinki í vasanum en þar sem þú spurðir ekki út í það þá skiptir það ekki máli.

3. Ertu með mörg kreditkort?

Er með tvö stykki.

4. Viðskiptabankinn þinn?

Kaupþing. Er nýbúinn að skipta eftir 21 ár hjá öðrum banka.

5. Ertu eyðslukló?

Gríðarleg. Ef ég fæ tækifæri til.

6. Leggurðu fyrir?

Að sjálfsögðu! Fyrir smáhlutum, fyrir stærri hlutum og svo auðvitað fyrir því þegar ég verð gamall og vitur.

7. Hefurðu átt í fjárhagslegum erfiðleikum?

Alltaf verið í ágætisstandi fyrir utan tímabil í framhaldsskóla þar sem mér þótti afar gaman að spila á Lengjunni. Ég hætti því fljótt þegar ég áttaði mig á því að ég var ekki góður veðmálakall.

8. Áttu þitt eigið húsnæði?

Já, ég bý í Fossvoginum.

9. Áttu sumarbústað?

Nei ég á ekki sumarbústað, en ég hef ekkert á móti þeim.

10. Fjárfestirðu í hlutabréfum eða skuldabréfum?

Persónulega ekki, nei. Konan mín á hlutabréf og er að spá í þessum málum. Ég lifi bara í gegnum hana þegar kemur að þessu og segi oftast já þegar hún spyr hvort við eigum ekki að fjárfesta í þessum bréfum.

11. Hver er versta fjárfestingin þín?

Sennilega allir Lengjumiðarnir í gamla daga sem voru ekki með vinning (það voru langflestir).

12. Hver er besta fjárfestingin þín?

Ég myndi sennilega segja kaffivélin, nýmalað kaffi í hverjum bolla er náttúrulega bara snilld, og svo sennilega sjónvarpið. Ég er mikill sjónvarpskall og fótboltinn á laugardagseftirmiðdegi á þessu tryllitæki með nýmalað kaffi og Pepsi Max er náttúrulega bara fullkomið!

13. Sérðu um fjármálin sjálfur eða gerir það einhver fyrir þig?

Konan mín sér um fjármálin á heimilinu. Ég sé um að halda uppi stemningunni.

14. Sérðu sjálfur um skattframtalið?

Já að sjálfsögðu. Það fer allt árið í að hlakka til þess að fá framtalið inn um lúguna.

15. Í hvað eyðirðu of mikið?

Sennilega mat. Mér finnst ógurlega gott að borða góðan mat. Síðan sennilega í föt og skó, sem minnir mig á að það er allt of langt síðan ég keypti mér bæði föt og skó, takk.

16. Hver er mesti munaðurinn sem að þú hefur leyft þér?

Úff... það er sennilega bara þegar ég keypti 60 þúsund króna kaffivél handa sjálfum mér í afmæligjöf. Annars er ég alltaf að leyfa mér einhvern smá munað, það er nauðsynlegt.

17. Í hvað ætlarðu að eyða næst?

Þökk sé þessu viðtali, föt og skó. Samt sennilega ný jakkaföt fyrst, ég þarf ný jakkaföt.

18. Hvort á að lækka tekjuskatt eða virðisaukaskatt?

Það er nýbúið að lækka virðisaukaskattinn sem er náttúrulega frábært. Þá vil ég auðvitað meira og vel að sjálfsögðu að það eigi að lækka tekjuskattinn.