Slitastjórn Glitnis vinnur enn í skaðabótamáli á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og helstu lykilstjórnendum Glitnis áður en bankinn fór í þrot. Málið er angi í Aurum-málinu svokallaða sem fólst í því að Glitnir lánaði félaginu FS38, félagi Pálma, sex milljarða króna í júlí árið 2008. Fjórir milljarðar af upphæðinni fóru í að greiða niður lán Fons, fjárfestingarfélags Pálma. Hann og Jón Ásgeir fengu það sem út af stóð, tvo milljarða króna.

Málið er tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Slitastjórnin vill milljarða sex endurgreidda ásamt vöxtum og höfðaði því mál á hendur þeim sem málinu tengjast fyrir tveimur árum. Hinir þeir sem slitastjórnin fer gegn eru Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Rósant Már Torfason, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar, lánaeftirlits og lögfræðisviðs bankans, Guðný Sigurðardóttir, fyrrverandi starfsmaður lánasviðs, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.

Samkvæmt mati sem lagt var fram í málinu í maí var virði hlutarins í Aurum Holding metinn á núll til tæplega eins milljarðs króna. Matið unnu þeir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og Bjarni Frímann Karlsson, lektor í viðskipta- og hagfræðideild við sama skóla. Töldu þeir að miða hefði átt við miðvirðið, 464 milljónir króna. Samkvæmt því lánaði Glitnir félagi Pálma 13-falt meira en sem nam virði hlutarins í Aurum Holding. Sexmenningarnir vildu fá yfirmatsmenn í málinu og verður tekist á um það hvort þeir fái það.