Auður Capital hefur fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins sem verðbréfafyrirtæki. Starfsleyfi Auðar Capital tekur til viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem felst í eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf eftir því sem segir í tilkynningu frá félaginu.

„Auður Capital býður fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, fyrirtækjaráðgjafar auk þess að stýra fagfjárfestasjóðum (e.Private Equity). Auður leggur áherslu á óháða fjármálaráðgjöf, áhættumeðvitund og samfélagslega ábyrgð. Auður hefur gert samstarfssamninga við öll helstu fjármálafyrirtæki landsins sem og öflug alþjóðleg fjármálafyrirtæki og býður því mikið úrval fjárfestingakosta,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Auður Capital var stofnað af þeim Höllu Tómasdóttur, starfandi stjórnarformanni félagsins og Kristínu Pétursdóttur, forstjóra.

Fyrirtækið er í meirihlutaeigu stofnenda, starfsmanna og athafnakvenna.