Ávinningurinn af því að losna við Seðlabankastjórana, þótt það kosti einhverja hundruðir milljóna króna, er meiri en kostnaðurinn, segir Jón Daníelsson, hagfræðingur hjá London School of Economics.

Hann segir fyrir öllu að fá trúverðugan mann í Seðlabankastjórastólinn.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að það geti kostað ríkissjóð hundruðir milljóna króna að víkja Seðlabankastjórunum til hliðar áður en skipunartími þeirra rennur út.

„Ég held að ríkisstjórnin geti ekki eytt peningunum á betri hátt," segir Jón Daníelsson í samtali við Viðskiptablaðið.

„Seðlabankinn er lykilstofnun í þeim efnahagsvanda sem nú ríkir. Ef hann er ekki trúverðugur verður erfiðara að leysa vandann. Það þarf því að fá trúverðugan aðila þarna inn. Upphæðin sem hefur verið nefnd er mun lægri en ávinningurinn af því að fá trúverðugan einstakling þarna inn."

Ríkisstjórnin einbeiti sér að núverandi vandamálum

Þegar Jón er spurður út í þær hugmyndir Vinstri grænna að frysta eigur auðmanna svarar hann: „Það er mjög mikilvægt að gera upp við þá sem eiga sök á hruninu. En til þess höfum við lögreglu, lögfræðinga, skattrannsóknarstjóra og önnur yfirvöld."

Hann segir mikilvægt að ráðamenn styðji við fyrrnefnda aðila, til dæmis með mórölskum hætti og með fjárframlögum.

„Þessi mál tilheyra hins vegar fortíðinni," segir hann.

„Ég myndi því frekar kjósa að ríkisstjórnin eyddi allri orku sinni í að leysa þau vandamál sem við blasa í dag; vandamál heimilanna og vandamál fyrirtækjanna og koma í veg fyrir að ríkissjóður verði gjaldþrota."