Avion Aircraft Trading hefur gengið frá kaupum á tveimur nýjum Airbus A330-200 fraktvélum, vélarnar koma í fyrsta skipti á markað í ársbyrjun 2010. Listaverð hverrar vélar er um 8 milljarðar íslenskra króna en raun kaupverð er umtalsvert lægra og er ekki gefið upp segir í frétt Avion.

Kaupin á vélunum tveimur er til viðbótar við kaup á sex slíkum vélum í síðastliðnum febrúar . Samtals er því um að ræða átta vélar og hafa tvær af þeim verið seldar til Icelease og tvær leigðar til Icelandair Cargo dótturfélaga Icelandair Group.

Vélarnar verða afhentar 2010 til 2012 og er þetta í fyrsta skipti sem íslensk fyrirtæki kaupa og reka nýjar vélar frá Airbus.

Í tilkynningu kemur fram að ákvörðun Avion Aircraft Trading um kaup á þessum vélum byggist á hagstæðu kaupverði, spám um mikinn vöxt á fraktmarkaði og áætlaðri þörf fyrir meira en 400 fraktvélar af þessari burðargetu næstu 20 árin. Airbus A330-200 fraktvélin er eina vélin í sínum stærðarflokki sem getur borið 64 tonn með 7.400 km hámarks flugdrægi og hámarks burðargetu upp á 69 tonn með 6,000 km flugdrægi. Yfir 60 flugfélög reka í dag farþegaútgáfuna sem auðveldar viðkomandi flugfélögum að taka fraktútgáfuna í notkun.

Avion Aircraft Trading er í 51% meirihlutaeigu Hafþórs Hafsteinssonar og Arngríms Jóhannssonar, stjórnenda og annara fjárfesta og 49% í eigu HF Eimskip. Félagið var stofnað í apríl 2005 og hefur fyrir þessi kaup keypt 30 flugvélar, aðallega Airbus A300-600, Boeing 747-400 og nýjar Boeing 777 fraktvélar sem síðan eru seldar aftur á markaði.