Hluthafafundur Avion Group samþykkti í dag að breyta nafni félagsins í Hf. Eimskipafélag Íslands, segir í tilkynningu. Breytingin tekur gildi þegar í stað og verður nafni félagsins breytt í Kauphöll Íslands á morgun.

Hf. Eimskipafélag Íslands samanstendur nú af Eimskip og Air Atlanta Icelandic ásamt tengdum fyrirtækjum.

Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir á fundinum. Stjórn félagsins fram að aðalfundi 2007 er því skipuð þeim
Magnúsi Þorsteinssyni, formanni stjórnar, Eggerti Magnússyni, Gunnari M. Bjorg, Sindra Sindrasyni og Þóri Kristjánssyni.

Eimskipafélag Íslands er 92 ára gamalt nafn

Í tilkynningunni segir að Eimskipafélag Íslands er 92 ára gamalt nafn með mikla og merkilega sögu. Eimskip var fyrsta íslenska skipafélagið en fyrirtækið var upphaflega stofnað árið 1914.

?Eimskip hefur vaxið með ógnarhraða á síðustu misserum. Með kaupum á kanadíska fyrirtækinu Atlas sem ræður yfir 53 frystigeymslum víðs vegar í Norður Ameríku nánast tvöfaldast Eimskip á nýjan leik. Nú er svo komið að ríflega 80% af veltu félagsins kemur frá Eimskip. Á sama tíma liggur ljóst fyrir að nafn Eimskip er mun þekktara á markaðssvæðum félagsins og nýtur mikils trausts og velvildar,? segir Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Hf Eimskipafélags Íslands.

Eimskip rekur 157 starfsstöðvar í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu. Fyrirtækið er með 40-50 skip í rekstri, 1.350 flutningabíla og yfir 100 frystigeymslur og starfsmenn félagsins eru um 8.500.

Air Atlanta Icelandic er flugfélag sem sérhæfir sig í fraktlausnum fyrir viðskiptavini sína og fellur því vel að flutningafélaginu Eimskip Air Atlanta Icelandic er með um 20 starfsstöðvar í Evrópu, Asíu, N-Ameríku og Afríku. Félagið er með um 25 flugvélar í rekstri. Starfsmenn félagsins eru tæplega þúsund talsins af fjörutíu þjóðernum.

Hf. Eimskipafélag Íslands er í dag hlutafélag sem er í eigu hátt í tuttugu og fimm þúsund hluthafa. Hf. Eimskipafélagið gerir ráð fyrir að velta félagsins nemi 133 milljörðum króna á árinu 2007.