*

miðvikudagur, 21. október 2020
Erlent 4. júní 2020 12:55

BA tapar 178 milljónum punda á viku

Forstjóri BA segir að flugfélagið eigi ekki „algildan tilverurétt“ en félagið á í miklum deilum við verkalýðsfélög.

Ritstjórn
Associated Press

IAG, móðurfélag breska flugfélagsins British Airways (BA), brennur í gegnum 178 milljónir punda af handbæru fé, eða um 29,7 milljarða íslenskra króna, á viku samkvæmt bréfi sem Alex Cruz, forstjóri BA, sendi á starfsfólk í gærkvöldi. SkyNews greinir frá. 

Cruz segir að tekjur flugfélagsins séu mjög takmarkaðar þessa stundina og að ríkisstuðningur í gegnum aðgerðapakka bresku ríkisstjórnarinnar dugi fyrir minna en tveggja daga útgjöldum á mánuði.  

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær um 14 daga sóttkví allra ferðamanna sem koma til landsins. Cruz gagnrýnir þessar áætlanir og segir að „ríkisstjórnin hefur gefið iðnaðinum okkar annað högg með innleiðingu sóttkvíar á þá sem ferðast til Bretlands“. 

„Þrátt fyrir þrotlausa vinnu þá mun fjöldi fluga hjá okkur í sumar vera takmarkaður og samkeppnin verður mikil,“ bætti hann við. 

Mesta gagnrýnin fá þó verkalýðsfélögin GMB og Unite fyrir að neita að taka þátt í viðræðum eftir að félagið tilkynnti um 12 þúsund uppsagnir. „Ég vil bjarga eins mörgum störfum og mögulegt er. BA hefur þó ekki algildan tilverurétt.“

Sjá einnig: Hyggjast reka og endurráða starfsfólk

Len McCluskey, framkvæmdastjóri Unite, hefur áður kallað fyrirhugaðar uppsagnir „ólöglegar og siðlausar“. Hann hefur kallað eftir því að ríkisstjórnin endurskoði verðmæt lendingarleyfi British Airways á Heathrow sem talin eru nauðsynleg fyrir flugleiðir BA yfir Atlantshafið. 

Cruz segir að hegðun verkalýðsfélaganna valdi honum miklum áhyggjum. „Af stórfurðulegum ástæðum eru verkalýðsfélögin nú í herferð með það í huga að firra flugfélagið um lendingarleyfi á Heathrow,“ og sagði hann að slíkar aðgerðir myndu leiða til fleiri tapaðra starfa. 

Að lokum segir Cruz að eftirspurn í fluggeiranum verði lítil á næstu árum og að British Airways framtíðarinnar verði minna fyrirtæki. 

Stikkorð: British Airways GMB Unite Alex Cruz Priti Patel