Stjórn Bakkavör Group hefur ákveðið að hefja starfsemi í Asíu. Félagið hefur á undanförnum mánuðum unnið að verkefni í samstarfi við viðskiptavini sína um framleiðslu og pökkun matvæla í álfunni. Jafnframt hefur verið unnið að því að afla hráefna frá Asíu með það fyrir augum að lækka hráefniskostnað félagins. Niðurstöður þessa verkefnis eru jákvæðar fyrir bæði félagið og viðskiptavini þess segir í tilkynningu með 9 mánaða uppgjöri félagsins.

Hefur því stjórn Bakkavör Group ákveðið í framhaldinu að stofna félag um rekstur þess í Asíu undir nafninu Bakkavör Asía. Tilgangurinn með stofnun Bakkavör Asía er í fyrsta lagi að setja vörur á markað í Asíu í samstarfi við helstu viðskiptavini sína og nýta sér þannig þau sóknarfæri sem hinn ört vaxandi Asíumarkaður býður upp á. Í öðru lagi hyggst félagið lækka rekstrarkostnað með því að flytja vinnuaflsfreka starfsemi frá Bretlandi til Asíu og auka þannig samkeppnishæfni sína á heimamarkaði sínum í Bretlandi. Jafnframt hyggst félagið afla hráefna í auknum mæli í Asíu í framleiðslu félagsins. Framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn til félagsins og mun hann hefja störf 1. janúar 2005.