Bakkavör Group [ BAKK ] tilkynnti í dag um þrjá samninga sem fyrirtækið hefur gert.

Fyrst er að nefna að Bakkavör hefur keypt 45% hlut í La Rose Noir, einum helsta köku- og brauðframleiðanda í Hong Kong. Félagið hefur kauprétt á 45% hlut til viðbótar árið 2010. Kaupverðið er trúnaðarmál. Fyrirtækið La Rose Noir er í dag með um 250 starfsmenn í Hong Kong og 220 í Kína. Velta fyrirtækisins nam á síðasta ári um 16 milljónum Bandaríkjadala.

Einnig hefur Bakkavör gert skiptasamning (e. Contract of Difference) um 10,9% af útgefnu hlutafé félagsins Greencore Group PLC. Greencore framleiðir tilbúin matvæli og hráefni fyrir evrópskan smásölumarkað. Félagið er með um 9.000 starfsmenn, en velta félagsins fyrir reikningsárið sem endaði 28. september var 1,3 milljarðar evra.

Í þriðja lagi hefur Bakkavör keypt ítalska fyrirtækið Italpizza sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum og frosnum eldbökuðum pizzum. Kaupverðið er trúnaðarmál. Velta fyrirtækisins nam 40 milljónum evra á árinu 2007, en félagið verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi.