Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, hefur hafið störf á Lex lögmannsstofu. Örn Gunnarsson, faglegur framkvæmdastjóri stofunnar, segir þetta þátt í afplánun Baldurs, en Baldur var í febrúar á þessu ári dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.

„Hann mun sinna ákveðnum verkefnum fyrir okkur meðan á afplánuninni stendur og við lítum svo á að mikill akkur sé í honum. Hann hefur mikla reynslu bæði af lögmennsku og sem embættismaður,“ segir Örn.  Karl Axelsson, lögmaður á Lex, sá um vörn Baldurs í sakamálinu og segist Örn halda að hugmyndin að komu Baldurs hafa væntanlega sprottið af samtali hans við verjandann.

Baldur afplánar nú refsingu sína hjá Vernd, sem felur það í sér að hann þarf að mæta á kvöldin í áfangaheimili Verndar og vera þar fram á morgun. Skilyrði fyrir þátttöku í Verndarkerfinu er að viðkomandi stundi vinnu eða nám á daginn. Örn segir að Baldur muni starfa hjá stofunni í tæpt hálft ár en ekki hafi hafi verið rætt hvort hann haldi starfinu áfram að afplánun lokinni.