*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Fólk 25. janúar 2017 15:20

Baldur Már ráðinn framkvæmdastjóri Eyju

Eyja fjárfestingafélag er m.a. hluthafi í Domino's, Gló og fleiri veitingastöðum.

Ritstjórn
Baldur Már er nýr framkvæmdastjóri Eyju.
Aðsend mynd

Baldur Már Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eyju fjárfestingafélags, sem er í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Eyja á m.a. hlut í Domino's á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð sem og fjölmörgum þekktum veitinga- og kaffihúsum hér á landi, m.a. Gló. Baldur mun fara með framkvæmdastjórn þess félags samhliða starfi sínu hjá Eyju.

Í tilkynningu kemur fram að meginhlutverk Baldurs verði að vinna að fjárfestingum og hafa umsjón með eignasafni Eyju, þar sem hann mun sitja í stjórnum fyrirtækja í eigu Eyju og koma með margvíslegum hætti að rekstri þeirra.

Baldur er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Baldur hefur starfað í fjármálageiranum um 16 ára skeið, síðast sem fjárfestingastjóri á framtakssjóðasviði Virðingar (áður Auði Capital) frá árinu 2009 til ársloka 2016. Þar kom Baldur að fjárfestingum og sölum á fyrirtækjum, samskiptum við fagfjárfesta og eftirfylgni fjárfestinga með stjórnarsetu í fjölda félaga. Þar áður starfaði hann sem fjárfestinga- og lánastjóri hjá Íslandsbanka á árunum 2000-2009, þar af í þrjú ár á skrifstofum bankans í Kaupmannahöfn og New York.

Alls hefur Baldur setið í stjórnum og verið áheyrnarfulltrúi hjá á fjórða tug félaga, hér á landi og erlendis. Baldur Már er giftur Svanhildi Sigurðardóttur, markaðsráðgjafa hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, og eiga þau þrjú börn.