Í nýrri greiningu sjávarklasans er því velt upp hvort nota megi bálkakeðjutækni (e. blockchain) í sjávarútvegi. Bálkakeðja er tæknin sem liggur að baki rafmyntinni Bitcoin og lýsir sér þannig að bálkar af upplýsingum eru geymdar með dulkóðum í netverki þúsunda tölva. Þar sem um gríðarlegan fjölda tölva er að ræða er nær ómögulegt að reyna að breyta þeim upplýsingum.

Í greiningu Sjávarklasans er tekið dæmi til þess að útskýra bálkakeðjur. „Til þess að skýra þetta betur má taka dæmi af bók; upprunalega útgáfu af Harry Potter bókinni. Ef einhver breytir einni slíkri bók í tilteknu bókasafni með því að setja punkt á tiltekinn stað, þá munu bókasöfn um allan heim, sem eiga sömu bók, neita að staðfesta að um breytingu sé að ræða þar sem bókin er ekki í samræmi við sömu bók sem er í þeirra verslu. Þannig virkar bálkur eða keðja tölva sem öryggisventill í bálkakeðjunni.“

Þá segir jafnframt að talið sé að bálkakeðjutæknin nýtist best þeim matvælaframleiðendum sem leggi mestan metnað í hágæðaframleiðslu og uppruna. Það skorti traust á matvælamarkaði og bálkakeðja geti eflt gagnæji og aukið öryggi. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um eru innihaldslýsingar á fiski oft rangar og því telur Sjávarklasinn að bálkakeðjutæknin geti nýst við að tryggja réttmæti upplýsinga um innihald og uppruna. Erfitt hafi reynst fyrir íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi að flytja aukinn kostnað vegna vottana og aukinna gæða yfir á kaupendur en bálkakeðjur geti mögulega leyst það vandamál.

„Sem dæmi má taka að skanna mætti inn ákveðin einkenni fisks í bálkakeðju sem nokkur fyrirtæki mundu hafa aðgang að. Þannig væri sú bálkakeðja einungis opin fyrir hóp tölva þeirra fyrirtækja sem koma að þeim viðskiptum. Kaupandi getur síðan fengið staðfest að um þessa sömu vöru sé að ræða með því að gera sömu athugun á fiskinum.“