Hagvöxtur í Bandaríkjunum var 3,3% á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem er umfram væntingar greiningaraðila.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar fréttastofunnar má helst þakka aukinni einkaneyslu og útflutning en báðir liðir hafa farið fram úr því sem þegar var gert ráð fyrir að sögn viðmælenda Bloomberg.

Þegar hafði verið gert ráð fyrir auknum hagvexti upp á 1,9% en greiningaraðilar á vegum Bloomberg höfðu nýlega endurskoðað þá spá og bjuggust við auknum hagvexti upp á 2,7%.

Þjóðarframleiðslan jókst ekki nema um 0,9% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en hafði síðustu þrjá mánuði síðasta árs dregist saman um 0,2% sem þá var lélegast ársfjórðungurinn frá þriðja ársfjórðungi árið 2001.

Einkaneysla í Bandaríkjunum jókst um 1,7% en þegar hafði verið gert ráð fyrir 1,2 – 1,5% aukningu.

Á sama tíma jókst útflutningur um 13,2% að sögn Bloombeg en þegar hafði verið gert ráð fyrir 9,2% aukningu.

Reuters fréttastofan hefur þó eftir viðmælendum sínum að gera má ráð fyrir því að einkaneysla dragist nokkuð saman með haustinu þar sem almenningur hafi þegar að miklu leyti nýtt þá sjóði og skattaafslætti sem í boði voru frá alríkisstjórn Bandaríkjanna. Þá sé sumarið tíminn sem fólk noti til að dytta að húsum sínum, ferðast og versla á útsölum.

Þá hefur Bandaríkjadalur styrkst lítillega síðustu vikur og ef sú þróun heldur áfram má gera ráð fyrir því að hægja muni á útflutningi.