Markaðir tóku við sér á mörkuðum vestanhafs í dag. Nasdaq hækkaði um 0,71%, Dow Jones um 0.31% og S&P um 0,61%.

Í augsýn er að aukið framboð verði á lausafé og segir WSJ að þrátt fyrir litla hreyfingu og lækkun fjármálafyrirtækja í dag séu bjartir dagar framundan. Það voru þó fyrst og fremst orkufyrirtæki og tæknifyrirtæki sem hækkuðu í dag. Strax í morgun hækkaði Nasdaq vísitalan töluvert og hélst nokkuð stöðug fram undir hádegi. Eftir hádegi lækkaði hún þó eitthvað en eins og fyrr segir endaði dagurinn í plús.

Dow Jones vísitalan fór þó á nokkuð ról í dag en um tíma hafði hún hækkað um 272 stig þegar mest var en aftur á móti lækkað um 111 stig þegar mesta lækkunin var og endaði eins og fyrr segir í hækkun upp á 0,31%.

Eins og fyrr hefur komið fram var í dag tilkynnt um samstarf  seðlabanka nokkura landa sem auka á lausafé og framboð af dollurum í Evrópu. Fjármálamarkaðir tóku þó hægt við sér í kjölfar þessa frétta en talið er að fjárfestar haldi enn að sér höndum eftir gærdaginn, þegar bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 25 punkta. Einnig tilkynnti Bank of America að uppgjör fjórða ársfjórðungs yrði nokkuð undir væntingum og að afskriftir yrðu líklega meiri en áður var talið. Fjármálafyrirtæki lækkuðu í heildina í dag.

Símarisinn AT&T hefur hækkað um 4,8% á síðustu tveimur dögum. Búist er við miklum hagnaði fyrirtækisins á fjórða ársfjórðung og eins á næsta ári.

Olíuverð hækkaði um 4,3% í dag og í lok dagsins kostaði olíutunnan 93,86 bandaríkjadali. Í takt við það hækkuðu flest olíufyrirtæki vestanhafs.