Bandarískir viðskiptavinir kreditkortafyrirtækja hafa valið American Express (AMEX) sem besta kortið, fjórða árið í röð.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters en hin árlega könnun J.D. Power and Associates sýnir jafnframt að vaxandi ánægju með þjónustu kreditkortafyrirtækja almennt. Það má helst rekja til nýrra laga um skilmála kreditkorta sem samþykkt voru af bandarískum stjórnvöldum í febrúar sl.

Lögin fela það helst í sér að erfiðara er fyrir kortafyrirtækin að ganga á korthafa í vanskilum án þess að hafa áður farið vel yfir skilmála kreditkortanotkunar auk þess sem lengri tíma tekur að lögsækja korthafa í vanskilum en áður. Þá voru jafnframt settar strangari reglur um vexti og önnur gjöld.

Könnunin leiddi þó jafnframt í ljós að aðeins þriðjungur þeirra sem lent höfðu í vanskilum með kreditkortaafborganir sínar, þekktu skilmála kortanna vel. um 16% aðspurðra sögðu að þeir þekktu skilmálana lítið sem ekkert.

Á skalanum 1-1.000 mælis ánægjuvísitala kreditkortanotenda nú 714 stig, samanborið við 705 stig í fyrra sem var sögulegt lágmark.

Sem fyrr segir er mest ánægja með AMEX kortin, en AMEX er jafnframt stærsta kortafyrirtækið vestanhafs. Þar munar mestu um þau fríðindi og punktasöfnun sem kortið býður upp á, skv. frétt Reuters.

Þá lækkaði ánægja með Visa kort og mælist undir meðallagi samkvæmt frétt Reuters en JP Morgan er stærsti útgefandi Visa korta í Bandaríkjunum.

Einnig má sjá nánari umfjöllun um þetta mál á fjármálavef CNN.