Bandaríkjadalur veiktist gagnvart evrunni í dag eftir að fregnir bárust um að störfum í Bandaríkjunum fjölgaði minna í maí en gert var ráð fyrir, segir greiningardeild Landsbankans.

?Fjölgun starfa nam 75.000, en spár gerðu ráð fyrir að störfum fjölgaði um 170.000. Við opnun markaðar í morgun fengust 1,28 dollarar fyrir hverja evru, en dollarinn hefur veikst um 0,9% í dag," segir greiningardeildin klukkan fjögur. Þá bætir hún því við að atvinnuleysi hélst nánast óbreytt á milli mánaða og mældist 4,6% í maí.

"Miklar getgátur hafa verið um hvert næsta skref seðlabankans í Bandaríkjunum verður, en tölur sem birtar hafa verið í vikunni eru fremur svartari en búist var við. Nýjustu upplýsingar um þróun efnahagsmála í Bandaríkjunum eru því taldar draga úr líkum á stýrivaxtahækkun í júní, en meirihluti hagfræðinga sem hafa spáð fyrir um stýrivaxtabreytingu í Bandaríkjunum gerir ráð fyrir að þeir muni haldast óbreyttir," segir greiningardeildin.