Meiri samdráttur í bandarísku efnahagslífi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs leiddi til þess að Bandaríkjastjórn ákvað að endurskoða hagvaxtarspá sína fyrir árið. Í stað þess að hún búist við því að hagvöxtur á árinu verði 2,9% gerir stjórnin núna ráð fyrir því að vöxturinn verði einungis 2,3%. Þrátt fyrir það sagði fjármálaráðherrann Henry Paulson að vöxtur á síðari hluta þessa árs myndi taka við sér; staðan á vinnumarkaði væri góð og lítil hætta væri á verðbólguþrýstingi. Hagvaxtarspá stjórnvalda fyrir árið 2008 var hins vegar óbreytt, eða 3,1%.