*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 14. ágúst 2014 17:35

Bandarísk endurgerð af Heimsendi væntanleg

Framleiðandi bandarískrar endurgerðar Heimsendis segir þörf vera á þáttum sem sýna mannlegu hlið geðsjúkdóma.

Ritstjórn
Pétur Jóhann Sigfússon fór með eitt aðalhlutverkið í Heimsendi.

Bandaríska sjónvarpsstöðin Showtime hefur ákveðið að endurgera íslenska þáttaröðina Heimsendi. Jonathan Ames, sem er þekktur fyrir að hafa skrifað þættina Bored to Death, vinnur nú að bandarískri útgáfu þáttanna sem mun bera heitið World's End. Showtime er nú að þróa fyrsta þáttinn sem mun vera hálftími að lengd, ólíkt klukkutíma löngum íslenskum þáttum. 

Heimsendir var sýndur á Stöð 2 árið 2011 og var framleiddur af SagaFilm. Sögurþáðurinn er sá að verslunarmannahelgina árið 1992 er grunnskólakennarinn Einar lagður gegn vilja sínum inn á Heimsendi, geðdeild fyrir fólk sem samfélagið hefur gefist upp á. Hann er ósáttur við dvölina og gagnrýnir ríkjandi fyrirkomulag og fær aðra vistmenn með sér í lið til að gera byltingu. Þættirnir voru tilnefndir til fjögurra Eddu verðlauna. Auk þess að vera sýndir á Íslandi voru þeir einnig sýndir í Finnlandi. 

Jonathan Ames vinnur nú að handritinu og mun hann framleiða þættina auk Ben Silverman og Stephanie Davis. Silverman segir í samtali við WorldScreen að þörf sé á þáttum sem sýna mannlegu hliðina á geðsjúkdómum og að þrátt fyrir að þættirnir séu upphaflega íslenskir sé söguþráðurinn sígildur. Einhver munur verður á íslensku og bandarísku þáttunum. Bandarísku þættirnir munu ekki vera settir árið 1992, heldur í nútímanum og verða einhverjar persónur gerðar aðeins líkari þeim sem persónum sem bandarískir áhorfendur kannast við. 

Stikkorð: Sagafilm Showtime Heimsendir