Edward Whitacre Jr., forstjóri bandaríska bílaframleiðandans Genaral Motors, mun á morgun gefa út yfirlýsingu um að félagið endurgreiði 5,8 milljarða dollara lán til bandarískra og kanadískra stjórnvalda sem veitt voru til að endurreisa félagið úr gjaldþroti. Kemur þessi endurgreiðsla löngu á undan áætlun en samningur gerði ráð fyrir endurgreiðslu þann 30. júní.

Í síðasta mánuði var upplýst að tekjur síðasta ársfjórðungs 2009 hafi verið mun betri en búist var við. Munu 4,7 milljarða dollara endurgreiðsla á neyðarlánunum nú renna til bandarískra skattgreiðenda og um 1,1 milljarður dollara til yfirvalda í Ontario í Kanada. GM hefur þegar endurgreitt 2 milljarða af bandarískum lánum upp á 6,7 milljarða dollara og um 400 milljónir af 1,4 milljarða lánum frá yfirvöldum í Kanada.

Eftir sem áður mun ríkissjóður Bandaríkjanna eiga 61% hlut í fyrirtækinu þar sem 43 milljörðum af 50 milljarða styrk til GM var breytt í hlutafé í gjaldþrotameðferðinni á síðasta ári. Á sama hátt breyttu kanadísk yfirvöld 8 milljörðum dollara styrk í hlutafé gegn 12% eignarhlut í félaginu í fyrra samkvæmt frétt The Detroit News.

Forstjóri GM mun einnig kynna á morgun nýja fjárfestingaráætlun vegna verksmiðju fyrirtækisins í Kansas sem mun leiða til fjölgunar starfa.