Bandaríski seðlabankinn og verðbréfaeftirlitið (SEC) eru að leggja lokahönd á gerð formlegs samkomulags sem markar upphafið að breyttu reglugerðarverki um starfshætti fjárfestingarbanka á Wall Street.

Frá þessu er greint í Wall Street Journal (WSJ), en samkomulagið gæti verið kunngjört strax í næstu viku.

Breytingunum er meðal annars ætlað að auka samstarf og samnýtingu á upplýsingum á milli seðlabankans og SEC.

SEC og seðlabankinn munu meðal annars deila með sér upplýsingum er varða gögn um reikningsskil, viðskipti og útlánaáhættu fjárfestingarbanka. SEC fær jafnframt upplýsingar frá seðlabankanum um skammtímafjármögnun banka sem hafa fært til bókar hjá sér flóknar afleiður fyrir verðbréfafyrirtæki.

Fram kemur í frétt WSJ að slíkar upplýsingar hefðu getað reynst gagnlegar til að koma fyrr auga á vandræði Bear Stearns í mars síðastliðnum.

Samkvæmt samkomulaginu verður bandaríska seðlabankanum meðal annars heimilt að sjá upplýsingar um viðskiptastöðu, skuldsetningarhlutfall og eigið fé hjá fjárfestingarbönkum. Með breytingunum fær seðlabankinn því formlegt eftirlitshlutverk með fjárfestingarbönkum.

Henry Paulson fjármálaráðherra hefur lagt til að hlutverk seðlabankans verði jafnvel útvíkkað enn frekar – og bankinn verði einhvers konar allsherjarverndari fjármálakerfisins.

Sem kunnugt er greip bandaríski seðlabankinn til þeirra aðgerða að veita fjárfestingarbönkum aðgengi að skammtímafjármögnun gegn veði í fjárfestingarhæfum skuldabréfum, þar með töldum fasteignatryggðum skuldabréfavafningum, í kjölfar þess að Bear Stearns hrundi í mars. Frá þeim tíma hefur seðlabankinn haft greiðara aðgengi að upplýsingum um starfshætti fjárfestingarbanka í gegnum SEC.

Í frétt WSJ segir að eftir að bandaríski seðlabankinn bjargaði Bear Stearns frá þroti hafi útsendarar á vegum bankans verið að eftirlitsstörfum í í fjórum stærstu fjárfestingarbönkunum á Wall Street.

Hafa þeir meðal annars fylgst með lausa- og eiginfjárstöðu þeirra, ásamt áhættustýringu bankanna. Með fyrirhuguðu samkomulagi seðlabankans og SEC helst það fyrirkomulag óbreytt, jafnvel eftir að tímabundnu aðgengi fjárfestingarbankanna að lánsfjárglugganum lýkur í september næstkomandi.