Viðskiptablaðið greindir frá því í síðustu viku að erlendir kröfuhafar Byrs væru afar tregir til að samþykkja tilboð íslenskra stjórnvalda um niðurfærslu á kröfum þeirra. Helsta skýringin var sú að þeir voru orðnir langþreyttir á framkomu viðsemjenda í garð þeirra. Tilboð stjórnvalda var þó þess eðlis að allir kröfuhafar þurftu að samþykkja það svo að ríkið legði Byr til fé.

Því fóru þeir kröfuhafar sem vildu að endurskipulagningin gengi í gegn að þreifa fyrir sér um að kaupa kröfur þeirra sem voru neikvæðir, sem voru að mestu þýskir bankar. Einn þessara aðila, bandaríski vogunarsjóðurinn CarVal, gerði þýsku bönkunum tilboð sem gilti fram að miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 22. apríl. CarVal sjóðurinn er risastór vogunarsjóður sem á um níu milljarða dala, um 1.160 milljarða króna, virði af eignum og á fjárfestingar í 57 löndum. Á heimasíðu sjóðsins segir að hann „sjái tækifæri þar sem aðrir sjái einungis áhættu.“ Þýsku bankarnir höfnuðu þó tilboðinu og því tók íslenska ríkið yfir Byr í kjölfarið.