Stjórnendur bandaríska bankans Bank of America eru ánægðir með lífið þessa dagana. Hagnaður bankans nam 1,58 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 1,6 milljarða tap á sama tíma ári fyrr. Bætt afkoma bankans skýrist af nærri þrjátíu prósenta aukningu á veitingu fyrirtækjalána. Á sama tíma dró úr starfsemi fjárfestingarbankahlutans.

Bank of America er næststærsti banki Bandaríkjanna.

Breska viðskiptadagblaðið Financial Times bendir á það í netútgáfu sinni í dag að varúðarfærsla bankans á tímabilinu hafi numið 2,9 milljörðum dala samanborið við 5,1 milljarð ári fyrr.

Financial Times segir rekstur Bank of America hafa verið erfiðan upp á síðkastið enda hafi stjórnendur hans þurft að vanda til verka eftir kaup á íbúðalánafyrirtækinu Countrywide Financials. Bank of America hefði betur látið vera að kaupa fyrirtækið enda var það umsvifamikið í veitingu undirmálslána og því með stórskaddaðan efnahagsreikning.