Bandaríski risabankinn Bank of America hagnaðist um 2,5 milljarða dala á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar tapaði bankinn 8,8 milljörðum dala á sama tíma í fyrra. Afkoman nú jafngildir 19 senta hagnaði á hlut og þremur sentum yfir spám greiningaraðila.

Tekjur námu 21,97 milljörðum dala samanborið við 22,28 milljarða tekjur á sama fyrsta ársfjórðungi. Þetta er engu að síður talsvert betri árangur en á sama tíma í fyrra þegar tekjurnar námu 13,24 milljörðum dala.

Bankinn er brennimerktur fjármálakreppunni, sem einkennist ekki síst af kaupum bankans á fasteignalánafyrirtækinu Countrywide Financial haustið 2008. Fyrirtækið lánaði mikið af svokölluðum undirmálslánum og hafa afskriftir hjá fyrirtækinu brennt gat í bækur Bank of America. Stjórnendur bankans hafa af þessum sökum unnið að því hörðum höndum að draga saman seglin og lækka rekstrarkostnað. Hjá bankanum vinna réttum færri en allir Íslendingar eða 275.460. Tólf þúsund var sagt upp í fyrra og áform uppi um að 30 þúsund í viðbót fái uppsagnarbréf í hendur á næstu tveimur árum.