Hæstiréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og staðfest úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála um að Íslandsbanka hefði verið óheimilt að hækka vexti á fasteignaláni án skýringa. Þar með hefur dómstóllinn því staðfest úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála, sem staðfest hafði ákvörðun Neytendastofu frá því í júní 2015 um málið að því er RÚV greinir frá.

Málið hófst með því að lántakandi kvartaði til stofunnar árið 2013 eftir að honum hafði verið tilkynnt að vextir á fasteignaláni sem hann hafði tekið hjá Glitni árið 2005 myndu hækka úr 4,15% í 4,85%. Samkvæmt skilmálum lánasamningsins hafði komið fram að bankanum væri heimilt að breyta vöxtum þegar fimm ár væru frá lántöku og svo á fimm ára fresti upp frá því.

Fengu úrskurðinn felldan úr gildi

Íslandsbanki höfðaði mál og krafðist þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar yrði felldur úr gildi, sem Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í apríl í fyrra, á þeirri forsendu að lögin hefðu verið felld úr gildi áður en lántakandinn lagði fram kvörtunina.

Úrskurðaraðilarnir tveir, sem og nú Hæstiréttur segja að miðað við þáverandi lög hafi að þessar upplýsingar  ekki verið nægilegar, því ekki hafi komið fram við hvaða aðstæður bankinn gæti breytt vöxtunum. Þar með hafi verið brotið gegn ákvæðum laga frá 1994 um neytendalán.

Segir Hæstiréttur að þrátt fyrir að ný lög um neytendalán hafi tekið gildi árið 2013 þá beri lánveitanda ekki minni skylda en áður til að veita upplýsingar um vextina í lánssamningnum að því er fram kemur í úrskurðinum .