Japanir eru miklir brautryðjendur í lágvaxtastefnu og hafa stýrivextir nú verið neikvæðir frá því í febrúar 2016. Hagfræðingar í Japan, spá því að þrír stærstu bankar landsins verði af 300 milljörðum jena í ár og fram að mars 2017. Þessi upphæð jafngildir um 2,96 milljörðum Bandaríkjadala. Spáin var birt í Nikkei business daily fyrr í dag, en var unnin af fjármálaeftirliti Japan.

Eftirlitið hefur áhyggjur af því að stefna japanska seðlabankans muni hafa svo slæm áhrif á afkomu bankana að þeir muni neyðast til þess að takmarka útlán. Samkvæmt spánni á afkoma Mitsuhishi UFJ Financial Group að lækka um 155 milljarða jena, afkoma Sumitomo Mitsui Financial Group að lækka um 76 milljarða jena og afkoma Mizuho Financial Group að lækka um 61 milljarða jena.

Ólíklegt er að seðlabanki Japans muni hverfa frá núverandi vaxtastefnu og kæmi það mörgum hagfræðingum lítið á óvart ef vextir yrði lækkaðir enn frekar. Frekari vaxtalækkanir munu þá halda áfram að takmarka tekjur banka.