Sérstakur bankaskattur á bankana nífaldast á fyrsta fjórðungi í ár samanborið við fyrsta fjórðung í fyrra. Skattprósentan jókst úr 0,041% af heildarskuldum síðasta árs, í 0,376% af skuldum umfram 50 milljarða króna. Íslandsbanki greiddi 592 milljónir króna á fyrsta fjórðungi núna samanborið við 67 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Landsbankinn greiddi 835 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi núna samanborið við 90 milljónir í fyrra. Arion greiddi 660 milljónir króna samanborið við 91 milljón króna á sama fjórðungi í fyrra. Fjórði bankinn, MP banki, birtir ekki uppgjör ársfjórðungslega og því liggur ekki fyrir hversu mikið sá banki greiddi.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að bankaskatturinn hafi vissulega veruleg áhrif á afkomu bankans. Bankinn áætli að greiða á þessu ári 2,9 milljarða í bankaskatt. „Skatturinn leggst á skuldir bankans sem eru að stórum hluta innlán viðskiptavina. Það gefur því augaleið að þetta er stórkostleg skattlagning og kostnaðaraukning sem mun á endanum hafa áhrif á þau kjör sem við getum boðið okkar viðskiptavinum,“ segir Höskuldur.

Höskuldur segist einnig hafa orðið var við að þetta miklar og örar breytingar á skattumhverfinu veki upp spurningar hjá þeim sem horfa til Íslands sem fjárfestingarkosts. „Það er helst þessi óstöðugleiki og svo gjaldeyrishöftin sem menn hafa áhyggjur af,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .