Margir starfsmenn bankanna föluðust eftir starfi við framleiðslu þáttanna um Latabæ í kjölfar bankahrunsins.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph um Latabæ og frekari útrás Latabæjar.

Í umfjöllun Telegraph kemur fram að Magnús Scheving, höfundur og stofnandi Latabæjar leiti nú nýrra fjárfesta í þeirri von að geta stækka vörumerki Latabæjar, meðal annars með því að stofna veitingastaði undir merkjum Latabæjar í stærstu borgum heims og eins að framleiðslu kvikmyndar.

Blaðið hefur eftir Magnúsi að hann hafi áhuga á því að opna fjölskylduveitingastaði undir merkjum Latabæjar í mörgum af stærstu borgum heims, til að mynda Lundúnum, New York og Tokíó.

Að sögn Magnúsar er markaður fyrir heilsusamlega veitingastaði þar sem boðið er upp á skemmtiefni fyrir börnin.

Gert er ráð fyrir að hver veitingastaður muni kosta um 3,5 milljónir Bandaríkjadala í uppsetningu, hefur Telegraph eftir Magnúsi.

Þá kemur einnig fram að í kjölfar velgengni sjónvarpsþáttanna um Latabæ, sem nú eru sýndir í 120 löndum, á Magnús í viðræðum við kvikmyndaver á borð við Sony Pictures og Warner Brothers um framleiðslu kvikmyndar um Íþróttaálfinn en myndin mun bera nafnið Sportacus, sem er erlent heit Íþróttaálfsins.

Þá gerir Magnús ráð fyrir að myndin muni kosta um 25 milljónir dala í framleiðslu en hann hefur að sögn Telegraph ferðast um heiminn nýlega til að leita nýrra fjárfesta.

Sjá vef Telegraph.