„Afkoma fyrstu níu mánaða ársins er vel viðunandi og í samræmi við áætlanir,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion baka um uppgjör hans. Bankinn hagnaðist um 3,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi og 14,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Staðan var 777 milljónum krónum betri í lok september en á sama tíma í fyrra.

Haft er eftir Höskuldi í afkomutilkynningu að þrátt fyrir bætta stöðu sé umhverfið enn áfram krefjandi og lagaleg óvissa í loftinu.

„Einnig er óvissa um stöðu stærstu atvinnuvega og fjárfesting hefur ekki náð sér á strik svo nokkru nemi. Þá er margt óljóst um afnám gjaldeyrishafta og áfram blikur á lofti í alþjóðlegu umhverfi. Það er jákvætt að á undanförnum misserum hefur mikill árangur náðst í uppbyggingu bankans og raunar í íslensku efnahagsumhverfi þannig að grunnundirstöður áframhaldandi uppbyggingar eru fyrir hendi,“ segir hann.