Vikram Pandit, bankastjóri bandaríska risabankans Citigroup, sagði óvænt upp störfum í dag eftir að hann lenti upp á kant við stjórn bankans. Stjórnin krafði Pandit svara vegna lélegrar afkomu bankans á árinu. Því til viðbótar stóðst hann ekki álagspróf bandarískra fjármálayfirvalda fyrr á árinu og vildi stjórnin skipta bankastjóranum út.

Eins og breska dagblaðið Financial Times greinir frá málinu var um átakafund að ræða. John Havens, rekstrarstjóri bankans sagði starfi sínu lausu á sama tíma. Blaðið segir hann hafa áformað að setjast í helgan stein í lok árs. Hann hafi hins vegar ákveðið að fylgja í fótspor Pandit.

Pandit hefur stýrt Citigroup síðastliðin fimm ár. Hann tók við af Charles Prince sem fór frá þegar bandarísk undirmálslán tóku að brenna gat í bækur bankans.

Stjórnin hefur þegar ráðið nýjan mann til að taka við stýrinu af Pandit. Sá heitir Michael Corbat og hefur unnið hjá bankanum frá árinu 1983. Síðast var hann yfir starfsemi bankans þremur heimsálfum, Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku.