„Bankastjórnin verður að víkja án tafar," sagði Þorvaldur Gylfason prófessor á Borgarafundi í Háskólabíó fyrir stundu og uppskar sterkt lófaklapp og hróp salsins.

Þorvaldur sagði að bankastjórn Seðlabanka Íslands væri vís til að eyða láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að hífa krónuna upp fyrir eðlileg mörk. Þorvaldur sagði einnig að stjórnmálastéttin hefði brugðist og því þyrfti hún að draga sig í hlé.

Hvert sæti er skipað í aðalsal Háskólabíós. Anddyri byggingarinnar er sömuleiðis troðfullt af fólki sem ekki kemst inn í salinn.

Á fundinn eru mættir þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar, nema félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra.

Einnig er sæti fyrir Davíð Oddsson seðlabankastjóra en hann er ekki mættur.