Til stendur að sameina Sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Norðurlands nk. mánudag. Bankasýsla ríkisins fer með stærstan eignarhlut í báðum sjóðunum.

Sameiningin er í takt við stefnu Bankasýslunnar, að fækka sparisjóðum í hagræðingarskyni. Með sameiningunni hefur bankasýslan fækkað sparisjóðum sínum úr fimm í þrjá og að sögn Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra BR, er stefnt að því að fækka þeim niður í einn. „Það þarf að sameina sjóðina til að draga úr föstum kostnaði, auka arðsemi og bæta möguleika þeirra á að þjónusta meðalstóra viðskiptavini,“ segir Jón.

Sparisjóður Norðurlands er yfirtökusjóður í sameiningunni og mun nýi sjóðurinn bera það nafn. Þá þykir líklegt að Jónas Mikael Pétursson muni gegna stöðu sparisjóðsstjóra áfram en Ásgeir Sólbergsson, sparisjóðsstjóri á Bolungarvík, hefur sagt upp störfum. Kosið verður í stjórn sparisjóðsins á stofnfjárfundi á mánudag. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er óvíst hvort Ragnar Birgisson, stjórnarformaður Sparisjóðs Bolungarvíkur og formaður SÍSP, mun taka sæti í stjórninni.