*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 21. apríl 2019 14:05

Bann 40 ára lána bitni á ungu fólki

Framkvæmdastjóri LSR segir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði að mörgu leyti vera jákvæða.

Ingvar Haraldsson
Haukur Hafsteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri LSR.
Haraldur Guðjónsson

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem gengið hafa undir nafninu lífskjarasamningar, að mörgu leyti vera jákvæða. „Það er margt jákvætt í þeim. Ég er hins vegar mjög hugsi yfir því að banna verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára. Ég tel að það muni gera mörgu ungu fólki erfitt fyrir. Þetta eru þau lán sem unga fólkið sem er að kaupa fyrstu íbúð hefur ráðið við. Nú eru mjög stífar kröfur gerðar varðandi greiðslumat við lántöku. Þetta mun þýða að margir sem geta tekið lán núna munu ekki standast greiðslumat og geta því ekki fengið lán,“ segir hann.

Áhrifin af því að banna 40 ára verðtryggð lán muni vera þveröfug við markmið um að reyna að gera fleirum kleift að eignast eigið húsnæði. Hauki líst betur á hugmyndir um að hægt verði að nýta hluta af greiðslum í lífeyrissjóði í sparnað vegna fasteignakaupa. Meðal tillagna samhliða kjarasamningum er að heimilt verði að nýta iðgjald umfram 12% í eigin fasteignakaup. „Ég er hlynntur því að fólki sé boðið upp á þann valkost að iðgjald umfram 12% geti farið í séreign kjósi menn svo þó það sé ekki endilega hagstætt fyrir alla. Mér finnst líka að ungu fólki ætti að vera gefinn kostur á því að nýta þennan sparnað upp í íbúðarhúsnæði. Því fjárfesting í íbúðarhúsnæði er ákveðin leið til að byggja upp eignir og sparnað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: LSR Haukur Hafsteinsson