Stjórnvöld í Rússlandi hafa ákveðið að banna innflutning á matvælum til landsins frá ríkjum Evrópusambandsins, Bandaríkjunum, Noregi, Ástralíu og Kanada.

Um er að ræða aðgerðir til að mæta refsiaðgerðum vesturlanda, sem beitt hefur verið gegn Rússlandi, vegna framferðis þeirra í Úkraínu.

Í frétt Financial Times segir að Innflutningsbannið nái til kjöts, fisks, ávaxta, grænmetis og mjólkurafurða og muni gilda í eitt ár.

Þá er til umræðu að rússnesk stjórnvöld grípi til enn frekari aðgerða gegn vesturlöndum, til að mynda að banna innflutning á bílum, skipum og flugvélum.

Einnig kemur til greina að banna evrópskum og bandarískum flugfélögum að fljúga í landhelgi Rússlands á leið sinni til Asíu.