Óheimilt er að reikna seðlabankavexti afturvirkt á skammtímalán sem áður höfðu verið ólögleg gengistryggð lán, samkvæmt dómi Hæstaréttar sem féll í dag. Er dómurinn í samræmi við fyrri dóm þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki mætti endurreikna vexti á slíkum lánum afturvirkt heldur ættu samningsvextir að gilda um afborganir sem þegar hefðu átt sér stað, að því gefnu að lántakandi gæti vísað fram fullnaðarkvittunum um að hann hefði staðið í skilum á viðkomandi láni.

Óvissa var um það hvort þessi sama regla ætti við um skemmri lán, s.s. bílalán, en svar hefur fengist við þeirri spurningu nú.

Málið, sem Plastiðjan höfðaði gegn Landsbankanum, snerist um lán sem fyrirtækið tók hjá SP Fjármögnun til sjö ára en lánið var til kaupa á bifreið. Eftir gengislánadóma Hæstaréttar þurfti að reikna lánið upp á nýtt og voru forsvarsmenn Plastiðjunnar ósáttir við útreikninga Landsbankans.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar var Landsbankanum óheimilt að krefja Plastiðjuna um frekari greiðslur en þær sem fyrirtækið hafði þegar innt af hendi fyrir endurútreikningana. Kröfu Plastiðjunnar um endurgreiðslu var hins vegar hafnað þar sem Hæstiréttur taldi að fyrirtækið hefði ekki ofgreitt inn á lánið.