Valur Þór Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Taktikal, segir nýsköpun hafa skort á sviði peningaþvættisvarna síðustu ár, á sama tíma og skipulögð glæpastarfsemi sem fæst við þvættun peninga hafi staðið í mikilli vöruþróun.

Sem kunnugt er var Ísland sett á gráan lista FATF á síðasta ári eftir að hafa ekki staðist vissa þætti úttektar í peningaþvættisvörnum. Síðan þá hefur verið unnið hörðum höndum að því að bæta úr þeim athugasemdum sem gerðar voru, og nú í sumar fer fram endurúttekt, sem vonast er til að komi okkur af þeim lista.

Ný lög mun víðtækari
„Glæpagengin hafa mikið fjármagn og tækni, og eru á fullu við að þróa lausnir, á meðan þeir sem eiga að vera að uppfylla lögin hafa ekki sömu burði – fjármagnið og þekkinguna – til að bregðast við. Það sem við erum að gera er að búa þessi tæki til.“

Hann bendir á að ný lög um peningaþvætti séu mun víðtækari en þau gömlu, og nái til stórs hóps fyrirtækja sem mörg hver hafa ekki sömu burði og stórfyrirtæki til að sinna nýfengnum skyldum sínum.

„Þetta eru ekki bara einhver fjármálafyrirtæki. Það er fullt af millistórum fyrirtækjum sem falla undir þetta og eru þá tilkynningaskyld gagnvart Skattinum. Sem dæmi nær þetta yfir öll reiðufjárviðskipti yfir 10 þúsund evrum.“

Gæti hlaupið á hundruðum milljarða
Á meðan aðilar sem séu tilkynningarskyldir gagnvart Fjármálaeftirlitinu – fjármálafyrirtæki, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og fleiri – kunni nokkuð vel á þetta og séu með öll sín mál í ágætis farvegi, séu aðrir sem ekki séu komnir mjög langt. „Endurskoðendur, skattaráðgjafar, lögmenn, lögmannsstofur, bókhaldsstofur, fasteignasalar, listmunasalar, leigumiðlarar, og aðrir einstaklingar og lögaðilar sem stunda viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé.“

„Það er áætlað að peningaþvætti nemi um 2-5% landsframleiðslu á heimsvísu, og það er jafnvel talað um að það geti numið allt að 10% á ýmsum stöðum. Nú hefur komið í ljós að við erum einfaldlega ekki alveg í toppstandi í þessum efnum,“ segir Valur og vísar þar til umtalaðs grás lista FATF, „og því má leiða að því líkum að umfangið sé í hærri kantinum hér,“, en tíund landsframleiðslu eru tæpir 300 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .