Breski bankinn Barclays á nú í viðræðum um að kaupa eignir bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers en eins og kunnugt er lýsti Lehman brothers yfir gjaldþroti í gærmorgun.

Viðskiptaritstjóri BBC, Robert Peston segir á vef BBC í dag að stjórnendur Barclays í Bandaríkjunum hafi í gærdag fundað með stjórnendum Lehman brothers um að kaupa ákveðin verkefni af bankanum og er þá helst vísað til arðbærra viðskipta fjárfestingabankans.

Í tilkynningu frá Barclays kemur fram að bankinn íhugi kaup á eignum sem séu „aðlagandi fyrir hluthafa bankans,“ eins og það er orðað.  Þá er tekið fram að ekkert sé fyrirfram ákveðið með niðurstöður en þær verði kynntar á tilsettum tíma.

Þá kemur fram að Barclays hafi ekki áhuga á að kaupa fjárfestingar eða verkefni Lehman brothers sem tengjast fasteignamarkaði.

Þá kemur fram í frétt BBC að Barclays íhugi að ráða allt að 8 – 10 þúsund starfsmenn Lehman brothers verði af kaupunum. Þá starfa um 5 þúsund manns hjá Lehman brothers í Lundúnum en ekki er víst hvernig þeirra málum verður háttað.