Talið er að Barnes & Noble, stærsta bókaverslunarkeðja Bandaríkjanna, hætti fljótlega leit að fjárfestum án árangurs. Söluferli verslunarinnar hefur staðið yfir í marga mánuði. Bloomberg fréttaveita hefur eftir fimm einstaklingum sem þekkja til söluferlisins að líklega endi ferlið án sölu.

Meðal þeirra sem sýndu Barnes & Noble áhuga voru eignarhaldsfélög. Að minnsta kosti sjö aðilar hættu við kaupin eftir fyrsta stig söluferlisins. Einn heimildarmanna Bloomberg segir að líklega muni ferlið standa yfir í nokkrar vikur í viðbót, áður en það verður endanlega slegið af. Félagið sjálft hefur ekki viljað tjá sig um söluna.

Hagnaður Barnes & Noble hefur minnkað ár frá ári síðustu þrjú ár, og má að stórum hluta rekja til aukinnar samkeppni við rafræna útgáfu bóka.