Fjárfestirinn Thomas Barrack var í gær handtekinn vegna gruns um að hann hafi unnið í þágu Sameinuðu arabísku furstadæmanna við störf hans sem óformlegur ráðgjafi í forsetatíð Donald Trump. Barrack neitar sök í málinu, að því er BBC hefur eftir talsmanni hans.

Barrack er stofnandi og stjórnarformaður Digital Bridge, sem hét áður Colony Capital. Dótturfélag þess, Digital Colony, keypti nýlega óvirka fjarskiptainnviði Sýnar og Nova . Kaupin er þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem óskaði nýlega eftir umsögnum vegna viðskiptanna. Í samrunaskránni kemur fram að Digital Bridge, í gegnum Vantage Europe, hafi á síðasta ári eignast fyrirtækið Etix Everywhere Borealis sem starfrækir gagnaver á Blönduósi og Fitjum.

Barrack er sakaður um að hafa beitt sér ólöglega fyrir hagsmuni Sameinuðu furstadæmanna á meðan forsetaframboð Trumps stóð yfir og eftir að hann tók við embættinu. Barrack er meðal annars ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og að fara með rangfærslur í viðtali við alríkislögregluna árið 2019.

Barrack og Trump hafa átt í viðskiptum í meira en þrjá áratugi og starfaði Barrack meðal annars sem formaður nefndar um embættistöku Trumps ásamt því að taka þátt í fjáröflun fyrir kosningabaráttu hans.

Mark Lesko, starfandi aðstoðardómsmálaráðherra, sagði að meint framferði Barracks væri „ekkert minna en svik“ við bandaríska embættismenn, þar á meðal Trump.

Barrack hefur vakið athygli fyrir ýmiss konar fjárfestingar í gegnum tíðina, meðal annars að taka yfir eignarhald á Neverland-búgarði Michaels Jackson árið 2008 og kaup Colony Capital á franska knattspyrnuliðinu PSG, sem seldi það síðar til katarsks ríkisfjárfestingarfélags.